Stjórn og nefndir félagsins

Stjórn

Formaður FHU: María Berg Guðnadóttir

Gjaldkeri: Pétur Halldórsson

Ritari: Snæfríður Halldórsdóttir

Meðstjórnendur: Anna Jóhannesdóttir, Kolbrún Georgsdóttir

 

Skoðunarmenn:

Rúnar Ingi Tryggvason

Hörður Þorsteinsson

Ritnefnd og heimasíðunefnd

Ritstjóri: Ástrún Eva Sívertsen

Helgi Guðjónsson

Sesselja María Sveinsdóttir

Ferðanefnd

Guðjón Ingi Eggertsson

Ívar Örn Árnason

Svava. S. Steinarsdóttir

Rán Sturlaugsdóttir

Bláfánanefnd

Svava. S. Steinarsdóttir

Saga félagsins

Félagið var stofnað 10. febrúar 1981 og stofnfundur félagsins var haldinn í fundarsal Heilsugæslustöðvar Kópavogs og voru stofnfélagar 15.  Félagið hlaut nafnið Heilbrigðisfulltrúafélag Íslands.

Lög félagsins voru samþykkt á stofnfundi en skv. 5. gr. þeirra var skilyrði fyrir inngöngu í félagið að:

  1. Vera sérmenntaður heilbrigðisfulltrúi
  2. Hafa unnið sem heilbrigðisfulltrúi í 5 ár og tekið fullan þátt í námskeiðum Heilbrigðiseftirlits Ríkisins og námskeiði fyrir heilbrigðisfulltrúa erlendis. 

Markmið félagsins voru eftirfarandi:

•Að sameina heilbrigðisfulltrúa um áhuga- og hagsmunamál stéttarinnar og auka gagnkvæm kynni félagsmanna
•Að viðhalda og auka menntun heilbrigðisfulltrúa
•Að auka þekkingu og skilning á starfi heilbrigðisfulltrúa
•Að efla samvinnu þeirra um allt, sem horfir til framfara í heilbrigðismálum þjóðarinnar og koma á samvinnu við aðrar heilbrigðisstéttir í landinu

Félagið ætlaði að vinna að þessum markmiðum m.a. með því:

•Að halda fundi um áhugamál félagsmanna
•Að halda uppi fræðslustarfsemi s.s. námskeiðum, skoðunarferðum og erindaflutningi
•Að hafa tengsl við samtök heilbrigðisstétta, hérlendis og erlendis

Störf félagsins fyrstu árin voru m.a að:

Koma upp spjaldskrá yfir félagsmenn, með frambærilegri mynd og upplýsingum um menntun og störf
•Skipa fulltrúa í framkvæmdanefnd til að undirbúa gildistöku laga um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit 1982
•Tilnefna fulltrúa í stjórn Hollustuverndar 
•Gefa umsagnir um lagafrumvörp (tóbaksvarnir, hollustuháttalög) og senda tillögur og ályktanir varðandi slík mál til ráðuneyta og Hollustuverndar
•Láta félaga vita af erlendum ráðstefnum og kostnaði við að sækja þær
•Vinna að kjaramálum í gegnum Launa- og kjaranefnd félagsins og raða heilbrigðisfulltrúum í launaflokka
•Gera launakannanir
•Vinna ítarlega starfslýsingu fyrir heilbrigðisfulltrúa

•Hvetja til aukinna fjárveitinga til Hollustuverndar til að sinna rannsóknum 
•Gagnrýna gjaldskrá Hollustuverndar
•Gefa umsögn um fyrirhugaða mengunarvarnareglugerð og leggja til skýra verkaskiptingu milli Hollustuverndar og heilbrigðiseftirlits þar sem allt eftirlit átti að vera á höndum heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga en Hollustuvernd til ráðgjafar
•Senda stjórn Hollustuverndar tillögu að reglugerð um sérmenntun, réttindi og skyldur heilbrigðisfulltrúa
•Stofna siðanefnd sem setti siðareglur fyrir heilbrigðisfulltrúa
•Gerast félagi í Samtökum heilbrigðisstétta

Fræðsla á vegum félagsins

•Félagið fór snemma að standa fyrir fræðslufundum fyrir félagsmenn. Félagar fluttu einnig erindi á námskeiðum fyrir heilbrigðisfulltrúa.  Fundir voru m.a. um neysluvatn, vatnsvernd og ferðaþjónustu.
•Skemmtilegt tilviljun - 1992 var haldinn fræðslufundur á Akureyri þar sem farið var í skoðunarferðir, lært um gæðastjórnun og gæðakröfum í matvælaiðnaði auk kynningar á norrænni ráðstefnu fyrir heilbrigðisfulltrúa í Noregi.  Fundurinn stóð í 2 daga.
•Stjórn stóð stundum fyrir fræðslu í tengslum við aðalfund og m.a. keypt námsgögn frá Bretlandi úr námskeiði um Environmental control og Public Health.  Einnig ræddi stjórnin við endurmenntunardeild HÍ um möguleikann á sérhæfðum námskeiðum fyrir heilbrigðisfulltrúa
•Einnig tók félagið þátt í málþingum á vegum Samtaka heilbrigðisstétta
•Upp úr aldamótum hafa verið haldnir fræðslufundir m.a. um eftirfarandi málefni: bráðamengun, matvæli, neysluvatn, loftgæði, lyktarmengun, úrgang og fráveitu
2010 fór félagið að standa fyrir fræðsluferðum erlendis.  Farið hefur verið til Edinborgar, Toronto, Berlínar, Boston, Utrecht  og nú síðast til Svíþjóðar

 Fréttabréf FHU

•Útgáfa fréttabréfs hefur verið meðal verkefna félagsins frá upphafi og er kveðið á um útgáfu þess í lögum félagsins
•Í upphafi var fréttabréfinu einungis dreift til skráðra félaga og hugsað sem vettvangur til hugleiðinga og skoðanaskipta milli félaga, auk upplýsinga og fræðslu
•Síðar fékk fréttabréfið meiri dreifingu, m.a. til ráðuneyta og yfirstofnanna.  Síðan var farið að dreifa því til fjölmiðla og ýmissa hagaðila, s.s. fyrirtækja og verkfræðistofa
•Framan af var fréttabréfið fjölritað eða prentað, síðustu ár hefur það verið gefið út á rafrænu formi
•Leitað hefur verið efnis hjá félögum, ráðuneytum, félagasamtökum, sérfræðingum og fyrirtækjum
•Lengst af var leitað auglýsinga og styrkja til að standa straum af útgáfu.  Með tilkomu rafrænna lausna var þess ekki þörf

FHU verður til

•Á aðalfundi félagsins 29. apríl 1994 var nafni félagsins breytt með lagabreytingu í Félag heilbrigðis- og umhverfisfulltrúa (skammstafað FHU).
•Inntökuskilyrði í félagið voru rýmkuð og gátu nú sótt um aðild þeir sem starfa að heilbrigðis- og umhverfiseftirliti 
•Í kjölfarið gátu m.a. starfsmenn Hollustuverndar/UST sótt um aðgang

Þróun starfa félagsins

•Umsagnir um lagafrumvörp og reglugerðir voru mikilvægur þáttur í starfi félagsins 1990-2000.  Mikilvægust voru ný lög um hollustuhætti og mengunarvarnir auk mengunarvarnarreglugerðar. Félagið lagðist gegn því að heilbrigðisfulltrúar væru ekki lengur flokkaðir sem heilbrigðisstétt. Eftir að hætt var að senda félaginu formlegar umsagnarbeiðnir nú síðustu ár hefur þeim verið að mestu hætt
•Félagið missti fulltrúa sinn í stjórn Hollustuverndar upp úr 1995 og var því mótmælt kröftuglega
•Félagið var duglegt að álykta um ýmis málefni og senda þær ályktanir til ráðuneyta og stofnanna.  Upp úr aldamótum dró úr því og féll það svo niður
•Launa- og kjaramál urðu smá saman minni hluti starfsins enda slík mál í höndum stéttarfélaga.  Síðast var framkvæmd launakönnun 2005
•Félagið lauk þátttöku í Samtökum heilbrigðisstétta með því að leggja til að samtökin væru lögð niður sem var og gert.  Félagið er með fulltrúa í Bláfánanefnd en er annars ekki tengt neinum öðrum samtökum
•Félagið hefur veitt umhverfisráðuneyti aðhald er varðar framfylgd reglugerðar um réttindi og skyldur heilbrigðisfulltrúa  Það hefur m.a. gagnrýnt veitingu heilbrigðisfulltrúaréttinda til aðila sem ekki uppfylla skilyrði reglugerðar
•Meiri áhersla er nú lögð á fræðslu og samskipti.  Stofnuð hefur verið Facebook síða fyrir félagið þar sem færi gefst á umræðum og upplýsingagjöf

Lög félagsins

LÖG FÉLAGS HEILBRIGÐIS- OG UMHVERFISFULLTRÚA

 

I. kafli; heiti félagsins, heimili og hlutverk.

1. gr.

Heiti félagsins er Félag heilbrigðis- og umhverfisfulltrúa, skammstafað FHU.

2. gr.

Heimili þess og varnarþing er þar sem stjórnarformaður hefur starfsstöð hverju sinni.


3. gr.

Markmið félagsins eru:

a) Að stuðla að framförum á sviði heilbrigðis- og umhverfismála og koma á samvinnu við aðrar stéttir á því sviði.

b) Að auka þekkingu og skilning á viðfangsefnum heilbrigðis- og umhverfisfulltrúa.

c) Að viðhalda og efla menntun félagsmanna.

d) Að vera vettvangur fyrir áhugamál félagsmanna og auka gagnkvæm kynni þeirra.

4. gr.

Félagið vinnur m.a. að markmiðum sínum með því:

a) Að vera stjórnvöldum til ráðgjafar um heilbrigðis- og umhverfismál og láta í ljós álit sitt á heilbrigðis- og umhverfismálum eftir því sem ástæða er talin til.

b) Að annast fræðslu fyrir félagsmenn og almenning.

c) Að halda uppi tengslum við samtök heilbrigðis- og umhverfisstétta, hérlendis sem erlendis.

d) Að gefa út Fréttabréf FHU.

5. gr.

Félagið getur gerst aðili að samtökum sem vinna á einhvern hátt að svipuðum markmiðum eða hafa líkra hagsmuna að gæta. Tillaga um aðild skal hljóta sömu málsmeðferð og lagabreytingar. Fulltrúar FHU að slíkum samtökum skulu kosnir á aðalfundi.

 

II. kafli; félagar, réttindi og skyldur.

6. gr.

Rétt til inngöngu í Félag heilbrigðis- og umhverfisfulltrúa hafa þeir sem starfa að heilbrigðis- og umhverfiseftirliti.

7. gr.

Þeir sem óska að gerast félagar sækja um það skriflega til stjórnar.Samþykki stjórnin ekki samhljóða inntöku nýs félaga skal bera málið undir aðalfund eða allsherjaratkvæðagreiðslu. Stjórn félagsins getur gert tillögu til aðalfundar um að öðrum en þeim er um getur í 6. gr. verði boðin aðild að félaginu.

8. gr.

Félagsmönnum er skylt að fara eftir lögum félagsins og öðrum samþykktum þess. Sérhver almennur félagi er skyldur til að verða við kosningu til starfa í félaginu, nema gild forföll hamli, en getur neitað endurkjöri jafnlangan tíma og hann hefur gengt störfum í félaginu.

9. gr.

Að fenginni tillögu stjórnar getur aðalfundur gert að heiðursfélögum þá sem leyst hafa af hendi mikilsverð störf á sviði heilbrigðis- og umhverfismála. Heiðursfélagar greiða ekki árgjöld til félagsins.

11. gr.

Aðalfundur ákveður upphæð félagsgjalda hverju sinni að fengnum tillögum stjórnar. Gjalddagi félagsgjalda er 1. júlí ár hvert. Skuldi félagsmaður árgjöld tveggja ára skal stjórnin fella nafn hans af félagaskrá að undangenginni skriflegri viðvörun. Félagsmaður öðlast félagsréttindi á ný þegar árgjaldaskuldin er að fullu greidd.

12. gr.

Úrsögn úr félaginu skal tilkynnt stjórn félagsins skriflega.

13. gr.

Brjóti félagsmaður lög eða aðrar samþykktir félagsins eða komi á annan hátt þannig fram að ekki samræmist markmiði félagsins getur stjórn félagsins veitt honum áminningu eða lagt til að honum verði vikið úr félaginu, enda hafi viðkomandi félagsmanni verið gefinn kostur á að leggja fram skriflega greinargerð máli sínu til varnar. Til að slík tillaga teljist samþykkt, þarf hún að hljóta staðfestingu á aðalfundi með meirihluta atkvæða fundarmanna.

 

III. kafli; aðalfundur, félagsfundir og allsherjaratkvæðagreiðsla.

14. gr.

Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins. Aðalfundur skal haldinn ár hvert. Dagskrá fundarins skal tilkynnt í fundarboði, með a.m.k. 10 daga fyrirvara, svo og allar tillögur sem þurfa samþykki aðalfundar samkvæmt félagslögum.

15. gr.

Á dagskrá aðalfundar skulu vera eftirfarandi atriði:

1. Kjör fundarstjóra.

2. Kjör fundarritara.

3. Skýrsla stjórnar um félagsstarfið á liðnu ári.

4. Endurskoðaðir reikningar síðasta árs lagðir fram.

5. Skýrslur nefnda og/eða fulltrúa.

6. Ákvörðun tekin um árgjöld félagsmanna.

7. Tillögur og lagabreytingar.

8. Kjör formanns.

9. Kjör ritara og gjaldkera.

10. Kjör tveggja varamanna.

11. Kjör í nefndir og fulltrúa félagsins.

12. Kjör tveggja skoðunarmanna.

13. Önnur mál.

Breytingar á lögum félagsins verða aðeins gerðar á aðalfundi eða samkvæmt 17. gr. Tillögur um lagabreytingar, sem leggja á fyrir aðalfund, skulu birtar í fundarboði. Til lagabreytinga þarf 2/3 greiddra atkvæða, og helmingur félagsmanna hið fæsta sæki fundinn, en einfaldur meirihluti gildir að öðru leyti við atkvæðagreiðslur á aðalfundi. Aðalfundir og framhaldsaðalfundir eru lögmætir ef löglega er til þeirra boðað. Allar kosningar skulu vera skriflegar.

16. gr.

Ákvörðun um að halda framhaldsaðalfund skal taka á aðalfundi, ef ekki tekst að ljúka störfum aðalfundar. Halda skal fundagerðarbók yfir aðal- og framhaldsaðalfundi félagsins.

17. gr.

Félagsfundir skulu haldnir þegar stjórn félagsins sér tilefni til eða þegar minnst 10 félagar óska þess. Stjórnin ákveður fundarefni og fundartíma og skal boða hann sannanlega með tveggja vikna fyrirvara. Fundarefni skulu valin í samræmi við markmið félagsins og áhugamál félagsmanna. Stjórnin getur boðið gestum á félagsfundi. Stjórnin getur og ákveðið að einstakir fundir séu opnir almenningi og auglýst þá samkvæmt því. Umræður á fundum skulu skráðar af fundarritara í fundargerðabók. Án samþykkis stjórnar má engar skýrslur birta um það sem fram hefur farið á fundi.

18. gr.

Allsherjaratkvæðagreiðsla skal fara fram ef félagsfundur samþykkir ályktun þar um, ef stjórn félagsins þykir ástæða til eða minnst 1/10 hluti fullgildra félagsmanna krefst þess skriflega. Með allsherjaratkvæðagreiðslu má taka ákvörðun um mál, sem aðalfundir einir geta annars tekið ákvörðun um. Til samþykktar tillögu við slíka atkvæðagreiðslu þarf 2/3 greiddra atkvæða.  Heimilt er að framkvæma allsherjaratkvæðagreiðslu með póstatkvæðagreiðslu eða rafrænni atkvæðagreiðslu. Stjórn félagsins ber ábyrgð á undirbúningi og framkvæmd allsherjaratkvæðagreiðslu en atkvæðagreiðslan skal standa yfir ekki skemur en í 3 vikur.  Úrslit atkvæðagreiðslunnar skal kunngjöra öllum félagsmönnum með sannanlegum hætti.

 

IV. kafli; stjórnin og kosningar.

19. gr.

Stjórn félagsins skipa formaður, ritari og gjaldkeri. Formaður stjórnar fundi og boðar stjórn og varamenn. Stjórnin skal halda fundargerðabók yfir alla fundi sína og skrásetja öll innkomin erindi og útsend bréf og gögn. Fundur stjórnar er því aðeins lögmætur að allir stjórnarmenn sitji hann. Afl atkvæða ræður úrslitum við atkvæðagreiðslur, en ef atkvæði verða jöfn, skal fram fara allsherjaratkvæðagreiðsla um málið.

20. gr.

Formann, ritara og gjaldkera og tvo varastjórnarmenn skal kjósa skriflega á aðalfundi samkvæmt eftirfarandi: Annað árið skal kjósa formann, ritara og einn varastjórnarmann, en hitt árið gjaldkera og einn varastjórnarmann. Í fyrstu kosningunum eftir stofnfund skal kjósa gjaldkera og einn varastjórnarmann til eins árs. Enginn má þó sitja lengur í sama embætti en þrjú kjörtímabil í röð.

 

V. kafli; reikningar og endurskoðun.

21. gr.

Reksturskostnaður félagsins er greiddur úr félagssjóði. Kostnað af almennum fundum er heimilt að greiða úr félagssjóði. Félagssjóður ber fjárhagslega ábyrgð á útgáfu Fréttabréfs FHU.

22. gr.

Reikningsár félagsins er á milli aðalfunda. Reikningar félagsins skulu vera endurskoðaðir af tveimur skoðunarmönnum, kjörnum á aðalfundi.

23. gr.

Allir sjóðir félagsins skulu vera í vörslu stjórnar og skal hún sjá um að þeir verði ávaxtaðir á tryggan hátt. Um sérstaka sjóði félagsins skulu samdar reglur og skulu þær samþykktar á aðalfundi og fjallað um þær eins og lög félagins.

24. gr.

Félagið gefur út Fréttabréf FHU og skal senda það öllum félagsmönnum gegn árgjaldi. Fréttabréfið skal koma út eigi sjaldnar en einu sinni á ári. Stjórnin annast útgáfu Fréttabréfsins.

25. gr.

Tillögu um að slíta félaginu má einungis afgreiða á aðalfundi. Skal það tilkynnt sérstaklega í fundarboði og hlýtur því aðeins samþykkt að 3/4 fundarmanna greiði tillögunni atkvæði.

Lög þessi eru þannig samþykkt á stofnfundi félagsins í dag, 10. febrúar 1981, í fundasal Heilsugæslustöðvar Kópavogs, undirritaðir stofnfélagar staðfestum þau með undirskrift okkar og breytt á aðalfundum 20. apríl 1985, 17. mars 1984, 29. apríl 1994, 17 nóvember 2001, 6. nóvember 2002 og 24. október 2019.