Raftækjaúrgangur, spennandi tækifæri stjórnvalda

Jun 18, 2024

Raftækjaúrgangur er vaxandi vandamál á heimsvísu. Á hverju ári leggja Sameinuðu þjóðirnar (Unitar - United Nations Institute for Training and Research) mat á hversu mikill raftækjaúrgangur fellur til árlega. Í samantekt stofnunarinnar fyrir árið 2022 er talið að 62 milljónum tonna raftækja hafi verið fargað. Raftækjaúrgangur hefur aukist um 82% síðan árið 2010 og í fyrrahaust vakti Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) athygli á þeirri miklu mengun og hættu sem raftækjaúrgangur orsakar. Talið er að mengunin skapi ekki síst heilsufarstengd vandamál hjá börnum og konum.  

Á Íslandi er áætlað að um 7000 tonn af raftækjaúrgangi falli til árlega en einungis 30-40% skili sér í endurvinnslu. Ýmis átaksverkefni hafa verið sett á laggirnar til að auka skil á raftækjum til endurvinnslu en þrátt fyrir það hafa skilatölur ekki hækkað. Átaksverkefnin hafa gengið út á fræðslu almennings og færa söfnunarkassa nær almenningi. Árangurinn hefur látið á sér standa en til dæmis skilaði söfnunarátak Umhverfisstofnunar og Úrvinnslusjóðs árið 2020 nánast engum árangri. Sveitarfélög hafa reynt að vera með söfnunarbíl fyrir minni rafræki í hverfunum en ekki er að finna upplýsingar um árangur verkefnisins.  

Í júní 2021 var gefin út stefna í úrgangsmálum á Íslandi með yfirskriftinni „Í átt að hringrásarhagkerfi“.  Þar er meðal annars lögð áhersla á nauðsyn þess að auka söfnun á raf- og rafeindatækjaúrgangi og uppfylla söfnunarmarkmið um 65% endurskil sem tók gildi árið 2019.  Engar aðgerðir, sem stefnt er á varðandi raftækjaúrgang, hafa komið til framkvæmda.  

Paper box with Computer Hardware part electronic waste isolated on white background

Af ofangreindu má sjá að nauðsynlegt er að grípa til annarra aðgerða en þeirra sem nú þegar hafa verið reyndar án merkjanlegs árangurs. Það er lykilatriði að skilja hvað hindrar fólk í að skila inn raftækjaúrgangi og því þarf að skoða hegðun og viðhorf almennings til endurvinnslu og endurnýtingar á raftækjum. Tillögur að úrlausn þurfa að byggja á slíkri skoðun.  Þessa aðferðafræði hafa nokkur lönd nýtt og í Bretlandi starfar teymi sem kallast The Behavioural Insights Team (BIT) sem skoðar hvernig hegðun fólks mótast af mismunandi þáttum. Þetta teymi hefur gert heildstæða rannsókn á áhuga almennings á grænum valkostum. Teymið komst að því að 90% almennings vildi gjarnan endurvinna með einum eða öðrum hætti og að um 79% almennings var reiðubúinn til að láta gera við hluti og endurnýta.  

Margt hefur verið reynt og skoðað í þessum efnum. Áhrif góðs aðgengis að söfnunarstöðum raftækjaúrgangs eru til staðar og tilraunaverkefni í Cambridge í Englandi sýndi skil raftækja aukast með fjölgun söfnunarstaða. Aukning í skilum sást þegar söfnunarstaðir voru gerðir meira áberandi t.d. málaðir í skærum litum. Fræðsla um mikilvægi raftækjaskila til endurvinnslu þarf að vera markviss og skýr þannig að allir viti hvað hægt er að endurvinna. Umhverfisstofnun Bandaríkjanna telur að stór hluti raftækja endi í urðun einfaldlega vegna þess að almenningur veit ekki betur. Sýnt hefur verið fram á að merkingar með límmiðum sem á stendur „endurvinnanlegt“ skila árangri og auka meðvitund almennings um endurvinnslu og endurnýtingu. Skilagjöld á gömul raftæki hafa verið notuð sem hvatning sem virkar vel því fólk fær strax umbun.  Fyrirtæki á Íslandi hafa notað skilagjöld með ágætum árangri.  

Young people in conversation

Mjög áhugavert er að sjá í rannsókn BIT að 90% bresks almennings telur að stjórnvöld eigi að hvetja til meiri endurnotkunar og viðgerða á raftækjum. Þarna er samhljómur við nýjar reglur Evrópusambandsins sem hvetja til aukningar á viðgerðum á biluðum og skemmdum vörum með það markmið að draga úr sóun í hagkerfinu og neikvæðum umhverfisáhrifum. Sambærilegar reglur eru á stefnuskrá íslenskra stjórnvalda þó þær hafi ekki komið til framkvæmda. Tillögurnar byggja á einhvers konar endurgreiðslu til almennings á viðgerðarkostnaði en nauðsynlegt er að slíkar endurgreiðslur séu einfaldar og auðveldar í framkvæmd. Ákveðin hætta er á að endurgreiðslufyrirkomulag geti orðið of flókið í framkvæmd og það sæki ekki allir um endurgreiðslu sem eiga rétt á henni. Mögulegt er að endurgreiðsla yrði því ekki sá hvati sem henni er ætlað að vera.

Til að auka viðgerðir og endurnýtingu raftækja þarf fyrst og fremst viðhorfsbreytingu, bæði hjá stjórnvöldum og almenningi.  Stjórnvöld þurfa að stíga inn og gera almenningi auðveldara að endurnýta og endurvinna. Viðgerðir á raftækjum þurfa að vera raunhæfur og hagkvæmur valkostur þannig að almenningur hugsi um viðgerð sem fyrsta val og kaup á nýjum hlut sé í öðru sæti. Í dag eru hvatar til viðgerða fáir, varahlutir og viðgerðir eru dýrar samanborið við verð á nýju raftæki. Fyrir um ári síðan var sett af stað átak í Austurríki þar sem hver viðgerð á raftæki var niðurgreidd um allt að 200 evrum. Á einu ári voru 560 þúsund niðurgreiðslur nýttar en gert hafði verið ráð fyrir nýtingu 400 þúsund niðurgreiðslna á þremur árum. Mun færri raftækjum er hent og viðskipti á verkstæðum blómstra. Þetta dæmi sýnir hvernig einföld og markviss aðgerð af hendi stjórnvalda getur haft mikil áhrif.   


Anna Jóhannesdóttir

Heilbrigðisfulltrúi 

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur