Hvert er markmiðið með að leggja niður Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga ?
Meðfylgjandi er grein sem birtist Morgunblaðinu þann 3. desember 2025 og fjallar um markmiðin sem sett eru fram í áformunum sem leggja til að Heilbrigðiseftirlit Sveitarfélaga verði lagt niður.
Hvert er markmiðið með að leggja niður Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga ?
Fyrir þá sem ekki þekkja til þá kemur fram í áformum Umhverfis- orku- og loftslagsráðuneytisins nr. S-160/2025 að leggja eigi heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga niður og skipta verkefnum þeirra í þrjá hluta og færa undir aðrar stofnanir. Í fyrstu leit út eins og verið væri að fækka eftirlitsaðilum en í raun er verið að fjölga þeim.
Hver eru markmið stjórnvalda með þessum áformum ?
Þau Jóhann Páll Jóhannsson Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra kynntu áformin í september sl. og komu eftirfarandi markmið fram:
- Einföldun á regluverki
- Samræming eftirlits og stjórnsýslu í þágu vaxtar og verðmætasköpunar um allt land.
Umfjöllun um markmiðin
1. Einföldun á regluverki
Það verða alltaf sömu reglugerðirnar sem þarf að framfylgja alveg óháð því hvar verkefnin eru vistuð. Ísland er skuldbundið til að taka upp Evrópugerðir almennt og þær eru flestar teknar orðrétt upp. Hvað varðar matvælaeftirlit þá eru örfá séríslensk ákvæði sem gilda hér á landi og breyting á þeim væri engin einföldun. Það er því með öllu óljóst hvað ráðherrar ætla sér að gera til að einfalda þetta regluverk og hvernig. Það eru góðar og gildar ástæður fyrir þeim lögum og reglum sem gilda í dag um þá starfsemi sem fellur undir matvælalög og hollustuhátta- og mengunarvarnarlög. Orðin „einföldun á regluverki“ hljóma vel en segja í raun ekki neitt.
2. Samræming eftirlits og stjórnsýslu í þágu vaxtar og verðmætasköpunar um allt land.
Þó svo að verkefni yrðu færð milli stjórnsýslustiga og sett undir þrjú embætti þá þarf áfram að samræma eftirlit á öllu landinu. Allt eftirlit er unnið út frá sömu reglunum og leiðbeiningum sem hafa verið gefin út af stjórnvöldum. Það má líka benda á að það er ekki hægt að staðla eftirlit að öllu leyti, fyrirtækin eru eins mismunandi eins og þau eru mörg. Sem dæmi er ekki hægt að setja alla veitingastaði undir einn hatt, þeir eru hver öðrum ólíkir. Í eftirlitinu er farið yfir alla þætti í starfsemi hvers fyrirtækis, það fer því allt eftir því hvað verið er að gera á hverjum stað hvað farið er yfir í eftirliti. Gott dæmi sem mikið hefur verið fjallað um eru kröfur um vaska á veitingastað. Margir eru haldnir þeim misskilningi að það snúist um fjölda vaska þegar málið snýst um tilganginn með notkun vaskanna og snúa kröfurnar um að tryggja matvælaöryggi.
Þegar kemur að vexti og verðmætasköpun þá vill hún oft hefjast hjá litlum sprotafyrirtækjum og frumkvöðlum. Það er alveg ljóst að fyrir lítil fyrirtæki verður mjög íþyngjandi og mikill kostnaður sem fylgir því að fá tvo eða jafnvel þrjá eftirlitsaðila til sín í stað einnar eftirlitsheimsóknar frá heilbrigðiseftirliti. Auk þess sem flóknara verður að sækja um leyfi.
Nú þegar hefur flækjustig verið aukið fyrir veitingastaði með því að bæta við skráningaskyldu á veitingastaðina sbr. reglugerð nr. 689/2025. Umhverfis- orku- og loftlagsráðuneytið birti af því tilefni frétt um „Fljótlegra og einfaldara að opna veitingastaði með nýrri reglugerð“ sem er hreint ekki málið. Þessi breyting hefur gert allt ferlið flóknara, aukið skriffinnsku þeirra sem afgreiða og fyrirtækin eru í stórkostlegum vandræðum með að sækja um umrædda skráningu. Þessi frábæra „einföldun“ gerir að verkum að veitingastaður þarf nú að sækja um starfsleyfi og skráningu í stað þess að sækja um eitt starfsleyfi. Þarna varð einföldun regluverks að tvöföldun.
Hvað er í forgangi ?
Áformin eru að leggja til, algjöra umbyltingu á eftirlitskerfi sem varða öryggi almennings í landinu, það eitt og sér er mjög varhugavert. Eins og Jóhann Páll Jóhannsson hefur sagt: „Þetta er stærsta breyting á eftirlitsumhverfi fyrirtækja sem ráðist hefur verið í svo áratugum skiptir“. En það er ekki þar með sagt að breytingin verði góð, né til hagsbóta fyrir almenning. Í raun viðist sem tilgangur eftirlitsins og hagsmunir umhverfis og íbúa gleymist algerlega í þessum áformum.
Það er vel þekkt að tilfærslur á ábyrgð eftirlits, niðurskurður og stórtækar breytingar á fyrirkomulagi eftirlits geti haft alvarlegar afleiðingar, sé ekki rétt staðið að málum. Á meðan breytingar standa yfir má gera ráð fyrir að eftirlit muni veikjast. Í framhaldinu kæmi í ljós, þegar á líður, hvaða áhrif breytingarnar á eftirlitinu hafa heilt yfir. Verður einhverstaðar skortur á eftirliti? Verða breytingar á regluverkinu nægilega vel gerðar til að tryggja ábyrgð á öllum þáttum eftirlitsins og úrræði? Verðum við í stakk búin til að takast á við áskoranir? Áskoranir munu koma upp og þá þarf eftirlitið að vera tilbúið. Hugsanlega kemur í ljós að fyrirkomulag eftirlits verður ekki betra, hvað þá? Breytingin yrði að öllum líkindum óafturkræf, það væri ekki hægt að snúa til baka, þá gæti orðið óbætanlegur skaði jafnvel mannskaði vegna matarsýkinga sem dæmi. Hvað er í forgangi hjá stjórnvöldum?
Með von um að stjórnvöld endurskoði áform sín og efli heilbrigðiseftirlitið í landinu. Fyrir áhugasama er hægt að lesa meira um heilbrigðiseftirlit á www.fhu.is
Sesselja María Sveinsdóttir
Höfundur er matvælafræðingur, starfandi heilbrigðisfulltrúi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur og fyrrverandi starfsmaður hjá Matvælastofnun, Umhverfisstofnun og Hollustuvernd Ríkisins.
Upprunalega birt í Morgunblaðinu 3. desember 2025
