Hvar værum við án heilbrigðiseftirlits?

Nov 07, 2025

Í september sl. kynntu ráðherrar umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis og atvinnuvegaráðuneytis áform um að leggja niður Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga. Samkvæmt áformunum á að skipta verkefnum heilbrigðiseftirlitsins í þrjá hluta og færa ábyrgð á eftirliti með hollustuháttum og mengunarvörnum til Umhverfis- og orkustofnunar, ábyrgð á eftirliti með matvælum til Matvælastofnunar, en öðrum staðbundnum verkefnum verður fundinn annar staður innan stjórnsýslunnar í samráði við sveitarfélög. Áform þessi eiga að hafa þann tilgang að samræma eftirlit, einfalda og auka skilvirkni (mál nr. S-160/2025 í samráðsgátt).

Það að slíta sundur verkefni heilbrigðiseftirlits getur ekki talist vera til bóta, hvorki fyrir fyrirtækin í landinu né almenning, það mun ekki einfalda eða auka skilvirkni. Mörg fyrirtæki munu fá tvo eða jafnvel þrjá eftirlitsaðila í stað þess að fá eitt eftirlit. Leyfiskostnaður og eftirlitsgjöld munu hækka umtalsvert, sem mun bitna mest á minni fyrirtækjum. Ef þau áform stjórnvalda ganga eftir að leggja niður heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga liggur beinast við að starfsheitið heilbrigðisfulltrúi verði lagt niður. Um er að ræða verndað starfsheiti sem aðeins þeir sem hafa fengið sérstakt leyfi til geta haft, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Það væri synd og skömm að fella niður jafn mikilvæga starfsstétt og  heilbrigðisfulltrúar eru. Heilbrigðisfulltrúar sinna eftirliti sem fellur undir löggjöf um matvæli, hollustuhætti og mengunarvarnir og grípa inn í þegar hætta steðjar að. Um er að ræða heildstætt eftirlit með starfsemi þar sem farið er yfir starfsemina út frá mörgum þáttum. Meginmarkmiðið er að tryggja öryggi almennings og um leið vinna með og leiðbeina fyrirtækjum um að fara eftir kröfum sem settar eru í lög og reglur.

Störf heilbrigðisfulltrúa eru mikilvægari en flestir átta sig á því þau eru mörg hver falin. Það er ekki auglýst í hvert sinn sem heilbrigðiseftirlitið grípur til aðgerða og kemur í veg fyrir veikindi, slys eða hættur. Fyrirtæki og rekstraraðilar bera alltaf ábyrgð á sinni starfsemi en heilbrigðiseftirlitinu er skylt að grípa inn í þegar hættur eru til staðar og það er gert með því að takmarka starfsemi eða stöðva. Dæmi um aðgerðir heilbrigðiseftirlits er lokun veitingastaðar þar sem matvæli geta verið hættuleg og valdið veikindum hjá fólki. Annað dæmi er leikvallartæki sem er hættulegt börnum og er tekið úr notkun. Mengandi starfsemi sem er stöðvuð þar sem mengunarvarnabúnaður fyrirfinnst ekki og veldur mengun í umhverfinu. Óhrein sundlaug eða heitur pottur sem er óæskilegt fyrir fólk að baða sig í þar sem bakteríur geta fjölgað sér og valdið húðsýkingum.

Til þess að fá að starfa sem heilbrigðisfulltrúi þarf m.a. að taka réttindanám, en það tryggir að fagfólk með þekkingu og reynslu gegnir störfum heilbrigðiseftirlits, sem
snýr fyrst og fremst að því að tryggja öryggi almennings út frá matvælaöryggi, mengunarvörnum og umhverfisþáttum. Það er hagur okkar allra að fagfólk sinni þessum störfum. Heilbrigðiseftirlit skiptir máli bæði fyrir almenning og fyrirtækin í landinu. Við megum ekki glutra niður þessari mikilvægu grunnstoð í íslensku samfélagi. Verði kröfur og skyldur heilbrigðisfulltrúa lagðar niður getur hver sem er gengið í störfin, jafnvel starfsfólk sem hefur ekki næga fagþekkingu og þá er hætt við að við missum niður gæði í eftirliti og þjónustu við almenning. Starfið krefst sértækrar þekkingar á sviði heilbrigðis- og raunvísinda og þurfa heilbrigðisfulltrúar að hafa víðtæka þekkingu á mörgum mismunandi þáttum. Ef tengingin á milli þessara þátta er rofin er hætta á að þekkingin á samspili þeirra glatist.

Yfirvöld ættu að sjá sóma sinn í að styðja við jafn mikilvæga stétt og heilbrigðisfulltrúar eru og efla menntun og endurmenntun. Viðhalda heilbrigðiseftirliti þar sem tekið er á öllum þáttum í eftirlitinu, en vert er að taka  sérstaklega fram hversu mikilvægt það er að hafa heildstætt eftirlit sem tekur á öllum þáttum starfseminnar. Eftirlit sem fer yfir starfsemi út frá matvælalögum, hollustuháttalögum og mengunarvarnalögum. Oftar en ekki haldast þessir þættir í hendur og hafa áhrif hver á annan.

Rétta leiðin til að samræma heilbrigðiseftirlit á landinu er ekki að leggja heilbrigðiseftirlitið niður og tvístra verkefnunum í sundur og á milli þriggja aðila (Matvælastofnunar, Umhverfis- og orkustofnunar og sveitarfélaga). Besta leiðin til að samræma eftirlit er að efla þjálfun og menntun starfsmanna og auka samtal og samvinnu milli svæða.

Með von um að stjórnvöld endurskoði áform sín og efli heilbrigðiseftirlitið í landinu. Fyrir áhugasama er hægt að lesa meira um heilbrigðiseftirlit á www.fhu.is.

Sesselja María Sveinsdóttir matvælafræðingur, starfandi heilbrigðisfulltrúi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur og fyrrverandi starfsmaður hjá Matvælastofnun, Umhverfisstofnun og Hollustuvernd ríkisins. 

Upprunalega birt í Morgunblaðinu þann 5. nóvember 2025