Hvað er heilbrigðiseftirlit?
Allir eiga rétt á heilnæmu umhverfi, hvar sem fólk fer eða dvelur, en heilsuspillandi aðstæður geta skapast m.a. í tengslum við smitsjúkdóma, dvöl fólks í húsnæði, slysahættur, hættuleg efni, mengun, ónæði og neysluvörur á borð við matvæli og snyrtivörur. Sveitarfélögum er skylt að fylgjast með heilnæmi umhverfis á sínu svæði, þ.e. sjá um heilbrigðiseftirlit, og felst það í því að vakta, fyrirbyggja og bregðast við hvers konar heilsuspillandi aðstæðum í nærumhverfi fólks. Hlutverkið var fyrst sett í lög árið 1901 og er fjallað um það í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998.
Hvað eru heilbrigðisnefndir og heilbrigðisfulltrúar?
Heilbrigðisnefndir sveitarfélaga bera ábyrgð á heilbrigðiseftirliti og sveitarstjórnir kjósa í heilbrigðisnefnd eftir hverjar sveitarstjórnarkosningar. Á Íslandi eru 9 heilbrigðisnefndir og sér hver þeirra um heilbrigðiseftirlit á sínu svæði eða landshluta.
Heilbrigðisnefndir ráða til sín heilbrigðisfulltrúa sem sjá um daglega framkvæmd heilbrigðiseftirlits í þeirra umboði, s.s. undirbúning leyfisútgáfu og eftirlit með starfsemi, vöktun neysluvatns og loftgæða, vettvangsviðbragð og aðstoð við almenning vegna heilsuspillandi aðstæðna og mengunarslysa, viðbragð vegna matarborinna sjúkdóma, upplýsingagjöf til nærsamfélagsins og frumkvæði að umbótum í þágu heilnæms umhverfis.
Saman mynda heilbrigðisnefndir og heilbrigðisfulltrúar stjórnvaldið sem almennt er kallað Heilbrigðiseftirlitið.
Hvenær þarf leyfi heilbrigðisnefndar?
Starfsemi eða athafnir manna sem hafa teljandi áhrif á heilnæmi umhverfis þurfa leyfi heilbrigðisnefndar áður en starfsemin hefst. Þetta á t.d. við um samkomuhús, gistiþjónustu, snyrtistofur, veitingastaði, þvottahús, snyrtivöruframleiðslu, verkstæði, iðnað, notkun hættulegra efna eða hverskonar meðferð matvæla í atvinnuskyni*.
Starfsemi sem er háð leyfi heilbrigðisnefndar getur einnig eftir atvikum þurft leyfi annarra stjórnvalda, s.s. byggingarfulltrúa vegna tiltekinnar notkunar mannvirkis eða sýslumanns vegna viðburða eða sölu áfengis.
Hvaða kröfur þarf starfsemi að uppfylla?
Stjórnandi viðkomandi starfsemi þarf að þekkja hvaða hættur fylgja starfseminni fyrir heilnæmi umhverfis og gera viðeigandi ráðstafanir. Fyrirbyggja þarf hættur eða draga úr þeim eftir því sem mögulegt er í samræmi við eðli þeirra og umfang, m.a. varðandi hreinlætisaðbúnað, mengunarvarnir og öryggi neysluvara fyrir neytendur.
Þetta getur falið í sér að fylgjast með eigin starfsemi á skipulegan hátt, þ.e. með innra eftirliti, til að sannreyna og sýna fram á að starfsemin skapi ekki hættu fyrir almenning, neytendur eða umhverfið. Nánari kröfur eru jafnframt tilgreindar í lögum Alþingis, reglugerðum Stjórnarráðsins, samþykktum heilbrigðisefnda og skilyrðum starfsleyfa.
*Starfsemi háð leyfi heilbrigðisnefndar er tilgreind í IV. viðauka laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, og 20. gr. laga um matvæli, nr. 1995.