Hagsmunir almennings eru í húfi

Sep 13, 2025

Félag heilbrigðis- og umhverfisfulltrúa (FHU) varar við áformum Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um að leggja niður heilbrigðiseftirlit á Íslandi. Það hefur félagið gert með umsögn um mál nr. S-160/2025 inn á samráðsgátt.

Félagið telur óábyrgt af stjórnvöldum að fara í svo umfangsmiklar breytingar án greiningar á mögulegum áhrifum og án samráðs við fagaðila í stéttinni. FHU undirstrikar mikilvægi þess að vandað sé til verka en miklir hagsmunir eru í húfi, sérstaklega fyrir almenning.

Markmið heilbrigðiseftirlits er að búa almenningi heilnæm lífsskilyrði og vernda þau gildi sem felast í heilnæmu og ómenguðu umhverfi, meðal annars með því að efla öryggi matvæla og þjónustustarfsemi og fyrirbyggja mengun í umhverfinu. Þessum verkefnum, sem snúa að því að tryggja almannaheill, er þó stefnt í hættu, og má sem dæmi nefna vatnsvernd sem heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga hafa haft með höndum allt frá árinu 1968. Þá er óvíst hvaða áhrif breytingin hefði á starfsemi sem myndi fá eftirlit tveggja stofnanna í stað einnar, t.d. leikskólar, veitingastaðir og útihátíðir. Ekki er heldur búið að fjalla um afdrif umfangsmeiri umhverfismála sem hafa verið unnin í nánu samstarfi milli heilbrigðiseftirlits og annarra stofnanna sveitarfélaganna, eins og t.d. meðhöndlun skólps.

Óvissa ríkir um hvernig tvær aðskildar stofnanir muni samræma forvarnir gegn sjúkdómum og hættulegum efnum sem geta borist annars vegar með matvælum og hins vegar með öðrum hætti eins og t.d. í tengslum við almenningssalerni, fráveitu og efnanotkun.

Hvert eiga íbúar að leita þegar upp koma vandamál vegna hávaða, ónæðis, mengunar eða matarsýkinga? Almenningur hefur hingað til getað leitað til einnar stofnunar í sínu héraði, þ.e. heilbrigðiseftirlitsins, en með fyrirhuguðum breytingum yrði í sumum tilfellum óljóst hvort eða til hvaða stofnunar fólk ætti að leita til.

FHU telur að þessum og fleiri grundvallarspurningum sé ósvarað í núverandi áformum og hefur félagið því óskað eftir fundi með ráðherra til að ræða sjónarmið sín í von um að útfæra megi farsæla lausn sem samþættir hagsmuni almennings, sjónarmið rekstraraðila og skuldbindingar stjórnvalda.

Umsögn Félags heilbrigðis- og umhverfisfulltrúa um mál nr. S-160/2025.