FUMÍS—Fagfélag um mengun á Íslandi
Á vordögum 2023 stóð Verkís fyrir morgunverðarfundi um mengaðan jarðveg. Að loknum fundinum tóku nokkrir einstaklingar tal saman um þörf á félagsskap til að ræða um mengaðan jarðveg, vekja athygli á brýnu málefni og lyfta upp og þroska umræðuna. Hópurinn sem tók tal saman ákvað að vinna áfram með þessa hugmynd og undirbúa stofnun félags. Þann 12. febrúar s.l. var félagið FUMÍS – Fagfélag um mengun á Íslandi stofnað með formlegum hætti. Undirbúningshópurinn skipar fyrstu stjórn félagsins og eru það eftirfarandi. Formaður er Erla Guðrún Hafsteinsdóttir, ráðgjafi hjá Verkís, gjaldkeri er Kristín Kröyer sérfræðingur á Umhverfisstofnun, ritari er Guðjón Eggertsson heilbrigðisfulltrúi hjá HER, meðstjórnendur eru Helga Jóna Jónasdóttir verkefnastjóri hjá Vegagerðinni og Ríkharður Friðriksson heilbrigðisfulltrúi hjá HEF, varamaður í stjórn er Halldóra Björk Bergþórsdóttir ráðgjafi hjá VSÓ.

Sem fyrr segir er FUMÍS fagfélag þar sem einstaklingar eiga aðild að félaginu en bakhjarlar félagsins eru þau fyrirtæki og stofnanir sem stjórnarmeðlimir stafa hjá. Sérstaklega ber að þakka þann stuðning sem Verkís, Vegagerðin og Umhverfisstofnun hafa sýnt starfi félagsins.
Tilgangur og markmið með félaginu
Tilgangur félagsins er að standa fyrir og hvetja til faglegrar umræðu og stuðla að aukinni þekkingu á góðum og vönduðum vinnubrögðum í málefnum mengunar í jarðvegi, yfirborðs- og jarðvatni. Einnig að stuðla að auknu samráði og samstarfi ólíkra aðila í málefnum er varða mengun í jarðvegi, yfirborðs- og jarðvatni og hvetja til faglegra vinnubragða í mengunarmálum á Íslandi.
Félaginu er ætlað að ná markmiðum sínum með því að standa fyrir fræðslu, og einnig með því að tengja saman og vera vettvangur ólíkra aðila, sem koma á margan hátt að mengun í jarðvegi og yfirborðs- og jarðvatni. Félagið stendur fyrir og hvetur til faglegrar umræðu og vinnubragða í mengunarmálum og tekur þátt í erlendu samstarfi í málefnum er varða félagið. Að mati stjórnar þarf breiður hópur að koma að umræðu um málefnið s.s. opinberar stofnanir, framkvæmda og uppbyggingaraðila, jarðvinnuverktaka, ráðgjafa, eftirlitsaðilar og fyrirtæki með mengandi starfsemi svo eitthvað sé nefnt.

Eins og margir heilbrigðisfulltrúar þekkja vel hefur umræða um mengaðan jarðveg og mengun í jarð- og grunnvatni verið lítil hér á landi og verkfæri í formi laga og reglugerða vantað fyrir eftirlitsaðila að ógleymdri þeirri staðreynd að engar lausnir eða farvegur hefur verið fyrir slíkan úrgang hér á landi. Áskoranir eru fjölmargar og má nefna að bakgrunnsgildi eru ekki til fyrir ýmis mengandi efni í íslenskum jarðvegi, lagaumhverfi hér að landi er ekki fullnægjandi, skortur er á lögbundnum kröfum um ákveðna verkferla í rannsóknum á mengun í jarðvegi, grunn- og yfirborðsvatni, tækjabúnaður til sýnatöku er takmarkandi og engin rannsóknastofa hér á landi getur greint öll sýni. Síðast en ekki síst hefur skort lausnir til meðhöndlunar á menguðum jarðvegi og vatni á Íslandi. Það er mikilvægt að allir aðilar finni til ábyrgðar og hjálpist að við að finna lausnir á áskorunum framtíðar.
Heilbrigðisfulltrúi ávallt í stjórn félagsins
Að mati undirbúningshópsins er mikilvægt að opinberir eftirlitsaðilar séu vel inni í allri umræðu um mengun. Samkvæmt samþykkt um félagið skal ávallt vera einn heilbrigðisfulltrúi og einn fulltrúi Umhverfisstofnunar í stjórn félagsins. Er það hugsað til þess að embættin séu vel upplýst um umræðu um mengaðan jarðveg ásamt því að koma með beinum hætti að þeirri fræðslu og umræðu sem skapast í málaflokknum.
Haustfundur og grunnnámskeið í sýnatöku í menguðum jarðvegi?
Fyrsti fræðsluviðburður félagsins var haldinn 23. apríl. Þar var félagið kynnt, fjallað um lög og reglugerðir varðandi mengun og mengaðan jarðveg og farið yfir áskoranir sem Vegagerðin hefur mætt á höfuðborgarsvæðinu við undirbúning og framkvæmdi vegna mengunar í jarðvegi.
Þann 17. september verður næsti fræðsluviðburður félagsins og verður hann haldinn í sal hjá Verkís að Ofanleiti 3. Yfirskrift viðburðarins er „Hvað verður um mengaðan jarðveg?“ Þar verður rætt um hvort og þá hvaða lausnir eru í boði varðandi mengaðan jarðveg og hvort framtíðarsýn er til í því mikilvæga málefni. Stjórnin vill hvetja til þess að heilbrigðisfulltrúar og annað félagsfólk mæti á eftir föngum á viðburði á vegum félagsins og taki þátt í að skapa umræður um málefnin hverju sinni og einnig til að stuðla að tengslamyndun innan geirans, sem er eitt af markmiðum félagsins. Engu að síður er ljóst ekki eiga allir heimangengt hverju sinni og því er stefnt að því að viðburðum verði streymt til að auðvelda þátttöku. Einnig er til skoðunar að upptökur að viðburðum verði aðgengilegar eftir því sem kostur gefst á.
Þá hafa verið lögð drög að grunnnámskeiði í sýnatökum á menguðum jarðvegi i samstarfi við Umhverfisstofnun og Norges Geotekniske Institutt. Á námskeiðinu, sem yrði haldið 16. og 17.október ef næg þátttaka fæst, verður farið í aðferðir við sýnatöku, hvernig skuli staðið að undirbúningi fyrir sýnatökur og staðlar sem um sýnatökur gilda auk þess sem farið verður í vettvangsferð til sýnatöku. Heilbrigðisfulltrúar eru hvattir til að sækja námskeiðið og öðlast þekkingu til að bæði geta sjálfir staðið að sýnatöku og ekki síður til að öðlast færni til að meta hvort rétt er staðið að sýnatökum t.d. vegna áhættugreiningar sem unnin er í samræmi við reglugerð nr. 1400/2020 um mengaðan jarðveg. Nánari upplýsingar um námskeiðið og kostnað koma á heimasíðu félagsins www.fumis.is á næstu vikum. Stefnt er að því að uppsetning námskeiðsins fullnægi kröfum til að hægt verði að sækja um styrk fyrir þátttöku í starfsmenntasjóð BHM en upplýsingar um það munu koma á heimasíðuna. Námskeiðinu verður hvorki streymt né verða upptökur aðgengilegar enda er félagið ekki eigandi að því efni.

Aðild að félaginu – heilbrigðisfulltrúar hvattir til að taka þátt
Aðild að félaginu er opin öllum sem hafa áhuga á málefnum mengunar í jarðvegi og yfirborðs- og jarðvatni. Félagsgjöld eru engin eins og er. Sótt er um aðild með því að senda tölvupóst á netfangið [email protected].
Félagið er með heimasíðu www.fumis.is þar sem ætlunin er að ýmsar upplýsingar um málefni er varða mengun á jarðvegi, grunn og yfirborðsvatni verði aðgengilegar með tíð og tíma, auk upplýsinga um félagið, upptökur af fræðsluviðburðum og hvað er framundan í starfinu. Þá er einnig kominn facebook síða það sem efna má til umræðna, setja inn fróðleik og auglýsa viðburði félagsins.
Stjórn FUMÍS hvetur heilbrigðisfulltrúa til að taka þátt í starfinu og sækja fræðsluviðburði. Heilbrigðiseftirlitssvæðin standa frammi fyrir auknum áskorunum vegna mengunar í jarðvegi, grunn- og yfirborðsvatni og getur félagið verið góður bakhjarl að hafa í þeim áskorunum.
Guðjón Eggertsson
heilbrigðisfulltrúi HER
höfundur er ritari í stjórn FUMÍS