Fræðsla um Cryptosporidium
Cryptosporidium tegundir eru frumdýr sem lifa í smágirni sýktra manna og dýra (einkum kálfa). Tvær tegundir valda mestum fjölda sýkinga hjá fólki, Cryptosporidium parvum sem smitar bæði menn og dýr og Cryptosporidium hominis sem smitar eingöngu fólk.
Sýkillinn skilst út með hægðum, getur mengað hendur og yfirborð og þannig borist manna á milli. Sýkilinn er einnig að finna í jarðvegi, mat og vatni þar sem sýktir menn eða sýkt dýr hafa verið. Vatn er oft talið líkleg uppspretta smits.
Meðgöngutími, þ.e. tími frá smiti þar til einkenni koma í ljós er einn til tólf dagar, oftast tveir til tíu dagar eftir að smitun átti sér stað.
Einkenni eru misslæm og eru sumir einkennalausir. Helstu einkenni eru niðurgangur, lausar og vatnskenndar hægðir, magakrampi, ólga í maga og væg hitahækkun.
Frískir einstaklingar losa sig við sýkilinn og verða einkennalausir á þremur til fjórum vikum.
Ónæmisbældir einstaklingar losa sig síður við sýkilinn og geta verið með langvarandi sýkingu sem ekki batnar.
Greining smitaðra fer fram með PCR prófi á saursýnum. Greiningarnæmni PCR er meiri en með smásjárskoðun sem áður var notuð svo greindum tilfellum í fyrra fjölgaði um 50 fram yfir árið á undan.

Fyrirbyggjandi aðgerðir – Gott hreinlæti
Handþvottur með vatni og sápu eftir salernisferðir, eftir snertingu við dýr og fyrir alla meðferð matvæla. Þvo hendur eftir bleyjuskipti jafnvel þótt notaðir hafi verið hanskar.
Cryptosporidium er harðger sýkill sem getur lifað lengi utan líkama og hann er ónæmur fyrir sótthreinsunarefnum sem innihalda klór eða alkóhól.
Forðast þarf að gleypa ómeðhöndlað yfirborðsvatn eða sundlaugavatn.
Æskilegt er að þvo og/eða afhýða hrátt grænmeti og ávexti fyrir neyslu.

Viðbrögð við stökum sýkingartilfellum eða faraldri
Þeir sem eru með staðfesta sýkingu mega ekki fara í sund eða potta á meðan einkenni eru til staðar og æskilegt er að ef staðfesting eða grunur er um sýkingu sé ekki farið í sund í 2 vikur eftir að einkennum líkur. Þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir bleyjubörn.
Smitaðir ættu ekki að mæta til vinnu fyrr en 2 dagar eru liðnir frá síðustu einkennum.
Smitaðir ættu að forðast meðhöndlun matvæla þar til 3 dagar eru liðnir frá síðustu einkennum.
Börn með einkenni mega ekki vera á leikskóla eða í skóla á meðan þau eru með einkenni og þar til tveir dagar eru liðnir frá síðustu einkennum (niðurgangi).
Hafi börn verið veik eru forráðamenn þeirra í aukinni hættu á veikindum. Mælt er með vandlegum þrifum á salernum og/eða bleyjuskiptisvæðum og yfirborðsflötum þar í kring með vatni og sápulausn og að leikföng séu þrifin í uppþvottavél, þvottavél og þurrkara á háum hita eða strokið af með sápulausn í vatni.
Harpa Lind Björnsdóttir
heilbrigðisfulltrúi hjá HER tók saman
Upplýsingar teknar af vefsíðu embættis landlæknis og CDC og aðlagaðar aðstæðum.
https://island.is/smitsjukdomar-ao - undir Launsporasýking
Responding to Crypto Outbreaks at Childcare Facilities | Cryptosporidium | Parasites | CDC