Af hverju á að leggja niður Heilbrigðiseftirlit Sveitarfélaga ?
Meðfylgjandi er grein sem birtist Morgunblaðinu þann 8. desember 2025 og fjallar um áherslur sem sett eru fram í áformunum sem leggja til að Heilbrigðiseftirlit Sveitarfélaga verði lagt niður.
Af hverju á að leggja niður Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga ?
Nú áforma stjórnvöld að leggja niður heilbrigðiseftirlitið í landinu. Stefnt er að því, samkvæmt áformunum, að skipta verkefnum Heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga í að minnsta kosti þrjá hluta. Þau verkefni sem skila inn tekjum verða færð til tveggja ríkisstofnana en önnur verkefni sem skila engum tekjum en eru oftar en ekki erfið mál, verða skilin eftir hjá sveitarfélögunum. Sjá nánar áform nr. S-160/2025 í samráðsgátt.
Áherslur stjórnvalda
Í áformunum sem Jóhann Páll Jóhannsson Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra kynntu í september sl. kom fram að þau leggja áherslu á að:
1. Standa vörð um störfin á landsbyggðinni, þau vilja gæta að mannauði og vilja ekki flytja störf á milli landshluta.
2. Eftirlit á landsvísu verður samræmt og þjónusta þannig bætt til muna
3. Útgáfa starfsleyfa verður miðlæg og á vegum ríkisstofnanna (UOS og MAST)
4. Uppfylla kröfur frá ESA
Umfjöllun um áherslur stjórnvalda
1. Standa vörð um störfin á landsbyggðinni, þau vilja gæta að mannauði og vilja ekki flytja störf á milli landshluta.
Heilbrigðisfulltrúar út á landi sem sinna fjölmörgum verkefnum sem falla undir matvæla-, hollustuhátta- og mengunarvarnalög verða annað hvort að vera starfsmenn hjá tveimur stofnunum eða fækka verkefnum og þá þurfa tveir starfsmenn að sinna verkefnum sem einn starfsmaður sinnir í dag. Athygli er vakin á því að stjórnvöld taka mikla áhættu með fyrirhuguðum breytingum. Það er ekkert víst að heilbrigðisfulltrúar sætti sig við umræddar breytingar, sem fjallað er um í áformunum. Við erum fá hér á Íslandi og megum ekki við því að missa gott fólk í lykilstöðum, það tekur langan tíma að þjálfa upp góðan heilbrigðisfulltrúa. Hvernig fer ef fólkið með mestu reynsluna hverfur á braut? Hverjir munu þá sinna eftirlitinu? Hverjir munu halda þekkingunni við? Það tæki langan tíma að byggja upp sömu þekkingu og reynslu, og þegar á reynir gæti það haft alvarlegar afleiðingar.
2. Eftirlit á landsvísu verður samræmt og þjónusta þannig bætt til muna
Þjónusta við almenning og fyrirtæki hefur hingað til verið góð. Flestir sem taka á móti heilbrigðisfulltrúum í eftirliti eru þakklát fyrir eftirlitið, nýta sér það sem eftirlitið kemur með athugasemdir um til að betrumbæta sína starfsemi. Þó svo að sama skýrsluformið sé ekki notað um land allt þá er allstaðar unnið eftir sömu reglugerðunum og sömu leiðbeiningunum. Við erum eins misjöfn og við erum mörg, hver hefur sinn hátt á að koma fræðslu og leiðbeiningum áleiðis en allir hafa sömu markmið. Það er sorglegt að fylgjast með því að ráðherrar þessa lands skuli hlaupa til og breyta reglugerðum til að auka vinsældir sínar vegna fárra neikvæðniradda, sem þola illa að þurfa að fara eftir reglum sem settar eru með hagsmuni almennings í huga og allir aðrir lúta.
3. Útgáfa starfsleyfa verður miðlæg og á vegum ríkisstofnanna (UOS og MAST)
Með miðlægu kerfi til að afgreiða starfsleyfi verður fjarlægðin meiri á milli þeirra sem afgreiða umsóknir um starfsleyfi og þeirra sem sækja um starfsleyfi. Það mun lengja allt ferlið og þjónustan verður verri fyrir þá sem eru fjær. Sé um að ræða eitt sameiginlegt tölvukerfi til að halda utan um starfsleyfi þannig að þau séu öll nákvæmlega eins í útliti þá er hægt að leysa það án þess að kollvarpa öllu eftirliti.
4. Uppfylla kröfur frá ESA
Kröfur ESA eru vegna mismunandi skráningu á niðurstöðum úr eftirliti og einnig vegna aðkomu Matvælastofnunar að samræmingu á matvælaeftirliti. Matvælastofnun hefur það hlutverk að hafa yfirumsjón og samræma matvælaeftirlit á landinu en að mati höfundar fær stofnunin falleinkunn fyrir að sinna þessu hlutverki sínu einstaklega illa, það sama á við Umhverfis- og orkustofnun. Hver ástæðan fyrir því er, verða MAST og UOS að svara fyrir. Þegar Hollustuvernd ríkisins (þar á eftir matvælasvið Umhverfisstofnunnar) var starfandi var mun meira samtal milli yfirstofnunarinnar og heilbrigðiseftirlitssvæðanna, en þau eru afskaplega takmörkuð í dag milli MAST, UOS og HES.
Ráðherrar gleyma því mikilvægasta
Það sem er athyglisvert við áformin sem lögð hafa verið fram, er að þar vantar mikilvægasta atriðið af öllum. Það eru markmiðin sem eru leiðarljós heilbrigðiseftirlitsins - að tryggja almannaheill. Hvernig munu fyrirhugaðar breytingar tryggja að markmið þeirra laga sem heilbrigðiseftirlitin vinna eftir, verði uppfyllt? Það kemur hvergi fram að núverandi fyrirkomulag á heilbrigðiseftirliti uppfylli ekki markmið laganna. Það er heldur ekki tilgreint í áformunum að fyrirhugaðar breytingar muni tryggja að markmið laganna náist sem er að búa almenningi heilnæm lífsskilyrði og vernda þau gildi sem felast í heilnæmu og ómenguðu umhverfi, þ.m.t. að tryggja matvælaöryggi og fyrirbyggja mengun í umhverfinu. Þetta er eins köld vatnsgusa í andlit landsmanna.
Með von um að stjórnvöld endurskoði áform sín og efli heilbrigðiseftirlitið í landinu. Fyrir áhugasama er hægt að lesa meira um heilbrigðiseftirlit á www.fhu.is
Sesselja María Sveinsdóttir
Höfundur er matvælafræðingur, starfandi heilbrigðisfulltrúi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur og fyrrverandi starfsmaður hjá Matvælastofnun, Umhverfisstofnun og Hollustuvernd Ríkisins.
Upprunalega birt í Morgunblaðinu 8. desember 2025
